Atvinnulíf

Öfund í vinnu og af­brýði­samir vinnu­fé­lagar

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Eitt af því sem er svo erfitt við öfund eða afbrýðisemi á vinnustöðum er að hún öfund getur verið svo ósýnileg, þó svo þrúgandi. Ef við viljum leysa úr málum, er hægt að rýna í nokkur góð ráð. Því sjaldnast er það aðeins hinn aðilinn sem þarf að endurskoða eitthvað hjá sér.
Eitt af því sem er svo erfitt við öfund eða afbrýðisemi á vinnustöðum er að hún öfund getur verið svo ósýnileg, þó svo þrúgandi. Ef við viljum leysa úr málum, er hægt að rýna í nokkur góð ráð. Því sjaldnast er það aðeins hinn aðilinn sem þarf að endurskoða eitthvað hjá sér. Vísir/Getty

Það getur verið erfitt að upplifa afbrýðisemi og öfund frá vinnufélögum. Að finnast maður varla geta fagnað áföngum því að við finnum svo sterkt að ákveðinn einstaklingur, jafnvel nokkrir, eru ekki að samgleðjast okkur.

Byrjum á því að rýna í hvað afbrýðisemi þýðir:

Sterk neikvæð tilfinning, s.s. sársauki eða reiði, sem kemur upp þegar annar er tekinn fram yfir mann sjálfan, einkum í nánu sambandi.

Mögulega gæti afbrýðisemi átt sérstaklega við þegar við til dæmis fáum stöðuhækkun eða einhverja uppbót í starfi, sem öðrum finnst að hann/hún hefði átt að fá.

Orðið öfund þýðir:

Sú tilfinning að geta ekki unnt öðrum þeirra gæða sem hann nýtur.

Mögulega getur öfund átt við þegar við upplifum að vinnufélagi getur einfaldlega ekki samglaðst okkur sem skyldi.

Hvernig getum við brugðist við þessu?

Jú, rýnum í nokkur góð ráð.

  • Gerum ráð fyrir því jákvæða

Fyrst er að horfa inn á við. Taka ákvörðun um að gera frekar ráð fyrir því jákvæða en því neikvæða eða versta. Kannski erum við að ímynda okkur aðeins, viðkomandi er bara í smá vörn eða eitthvað annað að angra.

Ástæðan fyrir því að þetta atriði er mikilvægt er vegna þess að ef um afbrýðisemi eða öfund er að ræða, megum við ekki vera uppvís að því sjálf að vera dómhörð, jafnvel umfram það sem tilefni er til.

Það er til dæmis staðreynd að annað fólk er oftast að hugsa mun minna um okkur, en við teljum (allir eru fyrst og fremst að hugsa um sig).

Þannig að horfum inn á við og skoðum hvort viðhorfði okkar er kannski orðið litað af ályktunum sem við höfum dregið jafnvel í fljótfærni.

  • Verum fagleg

Hvað svo sem hinum aðilanum líður, þurfum við að passa okkur á því að vera fagleg sjálf. Hegða okkur ekki eins, vera neikvæð eða sýna einhverja unglingalega hegðan.

Þvert á móti leggjum við áherslu á að vera okkar besta útgáfa gagnvart öllum.

  • Að breyta sambandinu

Nei hér er ekki verið að tala um að forðast viðkomandi. Hér er verið að leggja til að við breytum einhverju sem gæti aukið skilninginn okkar á þeirri stöðu sem við teljum vera uppi.

Mælt er með því að byrja á virkri hlustun. Að virkilega vanda okkur við að hlusta með jákvæðu hugarfari á viðkomandi og jafnvel að leggja eitthvað til sem viðkomandi gæti þótt jákvætt af okkar hálfu. Sjáum hvort þetta leiði til góðs.

  • Að ráðfæra sig við þriðja aðila

Á sama tíma og það er mjög mikilvægt að forðast allt sem talist getur baknag á vinnustað, gæti verið gott að ráðfæra sig við einhvern sem þú treystir. Til dæmis mannauðsstjóra eða góðan vin.

Hérna þurfum við að vera opin fyrir því að fá endurgjöf sem felur líka í sér ábendingu til okkar sjálfra um það sem við gætum gert betur. Þá er mikilvægt að fara aðeins í svona samtal, ef markmiðið okkar er að reyna að laga eða leysa úr málum.

Því ef það er ekki markmiðið, erum við í raun bara að baktala og hvað segir það þá um okkur?

  • Markþjálfi eða sambærilegur aðili

Margir leita líka til markþjálfa eða sambærilegra aðila til að efla sig í samskiptum við fólk almennt. Því auðvitað er það eðlilegt að einhvern tíma á starfsævinni komi upp mál sem íþyngi okkur á einhverja vegu. Þá er um að gera að efla okkur þannig að við séum líkleg til að ná að leysa úr málum á sem jákvæðastan háttinn.


Tengdar fréttir

Þegar snobbaðir vinnufélagar fara í taugarnar á þér

Það er með ólíkindum hvernig hugurinn getur fengið okkur til að eyða orku að óþörfu. Mjög oft þá að láta eitthvað í fari annarra fara óskaplega í taugarnar á okkur. Til dæmis þeirra snobb.

„Karlarnir segja konur of reynslulausar“

„Karlarnir segja konur of reynslulausar og að þær þurfi að bíða. Vera þolinmóðar í svona tíu til fimmtán ár í viðbót, þá verði þetta komið,“ segir Ásta Dís Óladóttir prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Tilfinningin „að langa ekki til að fara í vinnuna“

Það er erfitt að líða þannig að langa ekki til að mæta til vinnu. Að fá hnút í magann á sunnudagskvöldum því að það er vinna daginn eftir. Að vera aldrei í tilhlökkun fyrir næsta dag, vegna þess að það er vinna daginn eftir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×