Enski boltinn

Tonali á­kærður á Eng­landi fyrir fimm­tíu meint brot

Aron Guðmundsson skrifar
Tonali er nú þegar að sitja af sér tíu mánaða bann frá knattspyrnuiðkun fyrir brot á veðmálareglum á Ítalíu. Nýjustu vendingar gætu orðið til þess að bannið lengist.
Tonali er nú þegar að sitja af sér tíu mánaða bann frá knattspyrnuiðkun fyrir brot á veðmálareglum á Ítalíu. Nýjustu vendingar gætu orðið til þess að bannið lengist. Vísir/Getty

Sandro Tonali, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle United hefur verið ákærður fyrir fimmtíu meint brot á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins. Frá þessu greinir sambandið í yfirlýsingu.

Tonali, sem gekk til liðs við Newcastle Untied fyrir yfirstandandi tímabil, var í október á síðasta ári dæmdur í tíu mánaða bann eftir að upp komst að hann hefði veðjað fjármunum á eigin leiki á meðan að hann spilaði á Ítalíu og þar með brotið í bága við veðmálareglur ítalska knattspyrnusambandsins. Auk þess var hann skikkaður til þess að sækja átta mánaða meðferð við veðmálafíkn.

Nýjustu vendingar gefa til kynna að um afar víðtækt vandamál Tonali sé að ræða. Samkvæmt yfirlýsingu enska knattspyrnusambandsins hefur Tonali verið staðinn að því að hafa, fimmtíu sinnum, brotið í bága við reglu E8 í veðmálareglum sambandsins, með því að hafa veðjað fimmtíu sinnum á knattspyrnuleiki milli 12.ágúst og 12.október á síðasta ári.

Honum er gefinn frestur til þess að standa fyrir máli sínu til 5.apríl næstkomandi en Newcastle United hefur nú þegar sent frá sér yfirlýsingu þar sem að félagið segist meðvitað um ákæruna á hendur Tonali vegna brota á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins.

Enn fremur segir í yfirlýsingunni að Tonali sýni ríkulegan samstarfsvilja í þessu máli og að hann hafi stuðning félagsins á bakvið sig. Hvorki Newcastle né Tonali muni tjá sig frekar um málið á þessum tímapunkti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×