Handbolti

„Við stóðumst ekki prófið í dag“

Hinrik Wöhler skrifar
Sigurgeir Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, á hliðarlínunni
Sigurgeir Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, á hliðarlínunni Vísir/Hulda Margrét

Sigurgeir Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki upplitsdjarfur eftir 13 marka tap Stjörnunnar á móti Haukum á Ásvöllum í kvöld. Leikurinn endaði með stórsigri Hauka, 36-23, en þetta var fyrsti leikur liðanna í 6-liða úrslitakeppni Olís-deildar kvenna í handbolta.

„Þetta var erfitt, við stóðumst ekki prófið í dag en höfum sem betur fer fleiri tækifæri.“

Liðin mætast á ný á mánudag á heimavelli Stjörnunnar og geta Garðbæingar náð fram hefndum eftir örfáa daga. Leikurinn í kvöld var þó einstefna Hauka frá upphafi til enda.

„Mér finnst ekki þrettán marka munur á liðunum, við töpuðum einum leik í deildinni stórt á móti þeim en við höfum staðið vel í þeim í fyrstu tveimur leikjunum í vetur. Við þurfum bara að skoða okkar leik og það verður bara að mæta með hreint borð á mánudaginn,“ sagði Sigurgeir skömmu eftir leikinn í kvöld.

„Við þurfum að sjá þetta saman og skoða okkar leik. Mér fannst þetta falla frá okkur í byrjun leiks en það eru bara atriði sem við vorum búin að tala um sem við klikkuðum á, sérstaklega varnarlega. Varnarleikurinn var ekki góður og við alltof flatar varnarlega. Lentum einar á stóru svæði og missum menn einn á einn. Það var engin samvinna í vörninni hjá okkur,“ sagði Sigurgeir þegar hann var spurður út í hvaða atriði þurfi að skerpa á fyrir næsta leik liðanna.

„Við náðum að stoppa Elínu Klöru [Þorkelsdóttur] en þá opnaðist fyrir Söru Katrínu [Gunnarsdóttur] og aðrar. Við skoðum þetta vel hvað við getum gert en við þurfum allavega að taka okkur saman í andlitinu og mæta almennilega til leiks á mánudag,“ sagði Sigurgeir að lokum eftir ósigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×