Handbolti

Ís­land í erfiðum riðli á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna EM-sætinu.
Íslensku stelpurnar fagna EM-sætinu. vísir/anton

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta verður í riðli með Hollandi, Þýskalandi og Úkraínu á EM í lok árs. Austurríki, Ungverjaland og Sviss halda mótið í sameiningu.

Ísland tryggði sér sæti á sínu fyrsta Evrópumóti í tólf ár með sigri á Færeyjum, 24-20, fyrr í þessum mánuði.

Í dag fengu íslensku stelpurnar svo að vita með hverjum þær verða í riðli á EM sem fer fram 28. nóvember til 15. desember næstkomandi.

Ísland var í þriðja styrkleikflokki þegar dregið var í riðla í Vín í dag. Íslenska liðið lenti í F-riðli ásamt Hollandi úr 1. styrkleikaflokki, Þýskalandi úr 2. styrkleikaflokki og Úkraínu úr 4. styrkleikaflokki. 

Riðill Íslands verður leikinn í Innsbruck í Austurríki. Tvö efstu lið hvers riðils komast í milliriðil en tvö neðstu falla úr leik.

Samkvæmt óstaðfestu leikjaplani mótsins mætir Ísland Hollandi 29. nóvember, Úkraínu 1. desember og Þýskalandi 3. desember.

Evrópumeistarar Noregs, sem Þórir Hergeirsson stýrir, eru í E-riðli með Austurríki, Slóveníu og Slóvakíu.

Riðlarnir á EM 2024

A-riðill (Debrechen, Ungverjalandi)

  • Svíþjóð
  • Ungverjaland
  • Norður-Makedónía
  • Tyrkland

B-riðill (Debrechen, Ungverjalandi)

  • Svartfjallaland
  • Rúmenía
  • Serbía
  • Tékkland

C-riðill (Basel, Sviss)

  • Frakkland
  • Spánn
  • Pólland
  • Portúgal

D-riðill (Basel, Sviss)

  • Danmörk
  • Sviss
  • Króatía
  • Færeyjar

E-riðill (Innsbruck, Austurríki)

  • Noregur
  • Austurríki
  • Slóvenía
  • Slóvakía

F-riðill (Innsbruck, Austurríki)

  • Holland
  • Þýskaland
  • Ísland
  • Úkraína



Fleiri fréttir

Sjá meira


×