Erlent

Vopna­hléið hefst í fyrra­málið og þrettán gíslum sleppt

Samúel Karl Ólason skrifar
Þúsundir íbúa Gasastrandarinnar hafa fallið í  linnulausum loftárásum Ísrael síðustu sjö vikur.
Þúsundir íbúa Gasastrandarinnar hafa fallið í linnulausum loftárásum Ísrael síðustu sjö vikur. AP/Abed Khaled

Vopnahlé milli ísraelska hersins og Hamas-samtakanna hefst klukkan fimm í fyrramálið, að íslenskum tíma. Það er klukkan sjö að staðartíma. Þá verður fyrstu gíslunum sleppt fyrir fólk í haldi Ísraela klukkan sex seinni partinn á morgun.

Forsvarsmenn Hamas-samtakanna segja í yfirlýsingu að fimmtíu gíslum í þeirra haldi, konur, börn og ungt fólk undir nítján ára aldri, verði skipt fyrir 150 konur, börn og ungt fólk undir nítján ára aldri í haldi Ísraela.

Samkvæmt Hamas munu Ísraelar hætta loftárásum á suðurhluta Gasastrandarinnar á meðan vopnahléið stendur yfir. Þeir eiga einnig að hætta árásum milli tíu og fjögur að degi til á norðurhlutanum.

Samkomulagið felur einnig í sér að tvö hundruð flutningabílar með matvælum, lyfjum og öðrum nauðsynjum verði hleypt inn á Gasaströndina og sömuleiðis verði fjórum olíu- og gasflutningabílum hleypt inn á degi hverjum.

Sleppa fimmtíu fyrir 150

Talsmaður utanríkisráðuneytis Katar sagði í dag að þrettán ísraelskum gíslum yrði sleppt klukkan sex á morgun. Þá verður væntanlega 39 Palestínumönnum sleppt úr haldi Ísraela. Times of Israel hefur eftir talsmanninum að mest áhersla hafi verið lögð á að losa konur og börn úr haldi og vonast sé til að áframhaldandi viðræður muni leiða til áframhaldandi friðar.

Talið er að um 240 manns séu í haldi Hamas, eftir árásir vígamanna á suðurhluta Ísrael þann 7. október.

Ráðamenn í Palestínu segjast vera komnir með lista yfir þá gísla sem sleppa á úr haldi á morgun og verið sé að hafa samband við fjölskyldur þeirra.

Ísraelar og leiðtogar Hamas hafa átt í viðræðum um nokkuð skeið, með aðkomu yfirvalda í Katar og Bandaríkjunum. Fregnir hafa þó nokkrum sinnum borist af því að samkomulag hafi verið í myndinni en það raungerðist svo fyrr í vikunni.

Vopnahléið átti að hefjast í dag en var frestað til morguns.


Tengdar fréttir

Sömdu um lausn 50 gísla gegn fjögurra daga hléi á átökum

Ísraelsmenn og Hamas-samtökin hafa komist að samkomulagi um lausn 50 gísla úr haldi Hamas á fjórum dögum gegn hléi á átökum á Gasa. Um verður að ræða börn og konur og hafa Ísraelar samþykkt að frelsa 150 börn og konur úr fangelsum sínum.

Samkomulag um vopnahlé í sjónmáli

Ráðherrar í ríkisstjórn Ísrael munu koma saman á fundi seinni partinn, þar sem þeir munu ræða samkomulag um að skipta á föngum fyrir gísla í haldi Hamas og mögulegt vopnahlé á Gasaströndinni. Samkomulag er sagt vera næstum því í höfn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×