Innlent

Gosmengun á höfuð­borgar­svæðinu í nótt

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Himinn var rauður þegar eldgosið var í hámarki í nótt sem leið. Von er á gosmengun á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Himinn var rauður þegar eldgosið var í hámarki í nótt sem leið. Von er á gosmengun á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Aníta guðlaug

Einar Halldórsson teymisstjóri loftgæðateymis Umhverfissstofnunar segir að gosmengunar gæti orðið vart á höfuðborgarsvæðinu seint í nótt eða fyrramálið. Það kemur einnig fram í tilkynningu á síðu Veðurstofunnar.

Einar segir í samtali við fréttastofu að gasmengunin úr gosinu sé ekki eins mikil og búist var við miðað við stærð strókana sem sáust í gær. Hann segir að það sé líklega vegna þess að kvikan hafi að mestu leyti verið búin að afgasa sig þegar hún braust upp á yfirborðið á ellefta tímanum í gær.

Lykt í Þorlákshöfn

„Það hefur lítið verið um gasmengun, allavega enn sem komið er í byggð. Það var aðeins í Selfossi í nótt en fór ekki yfir heilsuverndarmörk,“ segir Einar og bætir við að staðan líti betur út en hún gerði í gærkvöldi. Samt sem áður hafi borist tilkynning frá íbúa í Þorlákshöfn sem sagði að sterk brennisteinslykt fyndist í bænum.

„Vindáttin er þannig að hún færist aðeins yfir Vestmannaeyjar og þar en þá verður hún búin að þynnast aðeins út. Samt sem áður ætti hún að vera undir heilsuverndarmörkum miðað við þetta líkan,“ segir Einar.

Mengunin er ekki slík að hún ógni heilsu fólks en að þó geti verið að viðkvæmir finni fyrir einkennum ef það er úti í langan tíma þegar mengunin er sem þéttust.

Vestmannaeyjar í dag, Reykjavík á morgun

Í tilkynningu Veðurstofu segir að lítil virkni sé við suðurenda sprungunnar við Hagafell og að mesta hraunsrennslið leiti í austur í átt að Fagradalsfjalli. Einnig að gosmökkurinn bærist í dag undan vestan og norðvestan átt.

„Gasmengunar gæti orðið vart í Vestmannaeyjum í dag, en ekki annars staðar í byggð. Samkvæmt veðurspá gæti gasmengunar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu seint í nótt eða í fyrramálið,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að nýtt hættumatskort sé í bígerð og að það verði birt seinna í dag. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×