Innlent

„Eina leiðin til að bjarga henni var að fara út í“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Bergþóra tók það ekki í mál að láta hundana drukkna í ánni.
Bergþóra tók það ekki í mál að láta hundana drukkna í ánni. eiður h eiðsson

„Þetta var nú ekkert svakalegt, ég blotnaði bara vel og var lengi að ná upp hita,“ segir Bergþóra Eiðsdóttir sem kom hundi sínum til bjargar sem slysaðist út í Sogið í Þorláksmessugöngu. 

Bergþóra var ásamt föður sínum í hefðbundinni göngu með hunda sína í Þrastarskógi þegar einn þeirra kom auga á álftir í Soginu.  

„Hún hefur mikinn áhuga á fuglum og rauk af stað, hleypur meðfram bakkanum en endar með því að detta út í og var heillengi í vatninu,“ segir Bergþóra sem kveðst þekkja svæðið vel. Hundurinn var lengi úti í ánni og Bergþóra beið átekta þar til að hún áttaði sig á því að eina leiðin til að bjarga honum væri að fara út í. 

„Ég vissi alveg hvar ég ætti að fara út í. Þetta var ekki gert í neinu fáti, ég fór ekki út í fyrr en ég vissi að hún kæmist ekkert upp,“ segir Bergþóra og bætir við að faðir hennar hafi fengið mikið áfall.

Tíkin Medúsa ásamt Bergþóru.

„Ég öskra á hann að vera ekki að koma út í. Hann er 77 ára en hefði aldrei skilið hundinn eftir. Það kom því ekki annað til greina en að ég færi út í og sagði pabba bara að halda kyrru fyrir og taka myndir eða eitthvað.“

Björgunin gekk vel, þótt mikið puð væri. 

„Það var auðvitað ekki þurr þráður á mér, en mér varð ekkert meint af. Það var aðallega að brjóta klakann sem tók smá tíma. En ég mæli ekki með að stökkva til sunds í kraftkalla, hann þyngist svolítið,“ segir Bergþóra. 

„Ég hugsaði eftir á að ef þetta hefðu verið börnin mín þá hefði ég ekkert hugsað, bara látið vaða.“

Nú ætla þau í fjölskyldunni að njóta gleðilegra jóla. 

„Núna eru allir búnir að jafna sig en húsfreyjan er aðeins þreytt, ekki alveg klár að sjóða hangikjötið, en það kemur,“ segir Bergþóra að lokum.

Hundarnir fylgdust nokkuð áhyggjufullir með.eiður h eiðsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×