Handbolti

Stefán Arnars: Fram er með fjóra og við einn

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, sáttur.
Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, sáttur. Vísir/Hulda Margrét

Haukar tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitil kvenna í handbolta eftir sigur á Stjörnunni, 21-25. Haukar unnu einvígið 2-0 og Stjarnan komin í sumarfrí.

Stefán Arnarson, annar tveggja þjálfara Hauka, var ánægður í leikslok með sitt lið.

„Ánægður með að vera kominn í fjögurra liða úrslit. Við vissum eftir að hafa unnið fyrsta leikinn stórt að þessi leikur yrði allt öðruvísi, hver leikur á sitt líf. Þetta var erfiður leikur en við spiluðum frábæra vörn og vorum með góða markvörslu og það skóp þennan sigur.“

Lítið var skorað í fyrri hálfleik leiksins og var staðan 10-9 Haukum í vil í hálfleik. Stefán vissi hvað var að og reyndi að koma nýjum áherslum inn í liðið fyrir síðari hálfleikinn.

„Við vorum ekki að sækja nógu vel á markið og vorum að gera klaufalega feila. Þær fengu tvö gefins hraðaupphlaups mörk því við vorum að tapa boltanum illa. Við töluðum um það í hálfleik að reyna að bæta sóknarleikinn og hann lagaðist aðeins í seinni hálfleik,“ sagði Stefán og bætti við.

„Við þurftum bara að vera aðeins rólegri á boltann. Við vorum að flýta okkur allt of mikið í fyrri hálfleik og við erum með góða leikmenn fyrir utan og ef þeir gefa sér tíma þá finnum við alltaf opnanir.“

Haukar munu mæta Fram í undanúrslitunum. Aðspurður út í þá viðureign hafði Stefán þetta að segja.

„Ef þú horfir á tímabilið þá er Valur besta liðið með átta landsliðsmenn, Fram er með fjóra og við einn. Þannig að það er ljóst að það verður mjög erfitt fyrir okkur að mæta svona vel mönnuðu Fram liði. Það er allt hægt í handbolta en það er alveg ljóst að Fram er sigurstranglegra liðið,“ sagði Stefán að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×