Handbolti

„Mættum klárir og ætluðum að svara fyrir laugar­daginn“

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Gunnar Magnússon gat leyft sér að fagna í kvöld.
Gunnar Magnússon gat leyft sér að fagna í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var gríðarlega sáttur með frammistöðu sinna manna er þeir tóku á móti Stjörnunni í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í kvöld. Afturelding var með yfirhöndina frá fyrstu mínútu og unnu að lokum ellefu marka sigur 35-24 sem tryggði liðinu sæti í undanúrslitum.

„Ég er ótrúlega ánægður með strákana, við mættum klárir og ætluðum að svara fyrir laugardaginn. Við vorum ósáttir með frammistöðuna þar og það sást eftir tvær, þrjár mínútur að við voru klárir, náðum tökum á leiknum og vorum með undirtökin allan leikinn, við spiluðum frábærlega“

Stjarnan vann síðasta leik liðanna og aðspurður hvað þeir hefðu bætt á milli leikja var Gunnar fljótur að svara og sagðist hafa bætt allt saman.

„Allt saman, auðvitað hugarfarið mest. Við nýttum breiddina vel og héldum uppi orkustiginu. Svo erum við fyrir framan okkar fólk og með þessa stemmningu í húsinu, þá er allt hægt. “

Afturelding mætir Val í næsta leik og ætlar Afturelding að nýta heimaleikjaréttinn.

„Það verður gaman að glíma við Val. Við eigum heimaleikjaréttinn, við erum í öðru sæti og við verðum að nýta okkur hann og nýta þessa gryfju hérna í Mosó, það verður kjaftfullt hús. Við fáum núna smá tíma til að undirbúa okkur og við mætum klárir og kannski reynslunni ríkari frá því í fyrra. Við duttum út í undanúrslitunum í fyrra og okkur langar meira núna. “ 

Gunnar er spenntur fyrir einvíginu og býst við algjörri veislu. 

„Þeir eru með frábært lið og þegar þú ert kominn í undanúrslit þá eru bara góð lið eftir. Þetta verður hörku einvígi. Valur eru frábært lið og við líka. Þetta verður algjör veisla. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×