Innlent

Gjóskan út á haf og ætti því ekki að trufla flug

Oddur Ævar Gunnarsson og Telma Tómasson skrifa
Reykinn sem leggur frá eldgosinu nú er einnig svartur.
Reykinn sem leggur frá eldgosinu nú er einnig svartur.

Lítið gjóskufall gæti fylgt þeirri atburðarás sem nú er í gangi í eldgosinu á Reykjanesskaga, þar sem nú má sjá merki um samspil kviku og grunnvatns. Dökkan reyk leggur upp af hrauninu. Gjóskunni blæs út á haf og ætti ekki að hafa áhrif á flug.

Þetta segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, vakthafandi náttúruvásérfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu. Eins og fram hefur komið leggur svartan gosmenn í bland við vatnsgufu upp af eldgosinu og eru þar mögulega fyrstu merki um svokallað leirgos.

„Staðan núna er þannig að það virðist vera sem gosvirknin hafi dregist aðeins saman, í svona þrjú til fjögur gosop frá því sem var fyrir hádegi,“ segir Sigríður. Hún segir jarðskjálftavirkni áfram mjög litla.

„Við sáum svo mikinn reyk myndast og við teljum við fyrstu athugun líklegast að um grunnvatn sé að ræða, það sé þá samspil kviku og vatns. Það gæti fylgt því eitthvað smá gjóskufall.“

Gæti það haft áhrif á flug?

„Ekki eins og staðan er núna. Vindáttin er þannig að gjóskan blæs út á haf, þannig að það ætti ekki að hafa áhrif á flug að svo stöddu.“

Sigríður segir atburðarásina mjög svipaða því sem var í síðustu gosum á Reykjanesskaga. Þá hafi dregið hratt úr virkninni, þó nú virðist hafa dregist aðeins hægar úr henni en áður.

Geturðu spáð í framhaldið út frá því?

„Það er alltaf erfitt að gera það en við teljum að líklegast sé að gosið haldi áfram í einn tvo daga, en það gæti varað eitthvað lengur, það er ekki hægt að útiloka það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×