Innlent

Kjósa þarf aftur til biskups

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðrún er prestur í Grafarvogskirkju og Guðmundur í Lindakirkju.
Guðrún er prestur í Grafarvogskirkju og Guðmundur í Lindakirkju. Vísir/Einar

Kjósa þarf aftur á milli þeirra Guðrúnar Karls Helgudóttur og Guðmundar Karls Brynjarssonar vegna þess að ekki fékkst meirihluti í atkvæðagreiðslu sem lauk í dag í biskupskjöri. Kosið verður aftur þann 2. maí. 

Samkvæmt reglum um biskupskjör skal kjósa á milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði ef enginn fær meirihluta atkvæða. Það þeirra verður réttkjörinn biskup Íslands sem fær meirihluta úr þeirri kosningu. Verði atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða. Samkvæmt tilkynningu á vef Þjóðkirkjunnar er stefnt að seinni umferð kosningar hefjist fimmtudaginn 2. maí kl. 12:00 á hádegi og standi til þriðjudagsins 7. maí kl. 12:00 á hádegi.

Atkvæðagreiðslu til biskupskjörs lauk á hádegi í dag. Atkvæðagreiðsla hófst þann 11. apríl. Kosið var á milli þriggja presta sem fengu flestar tilnefningar. Það voru þau Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjunni, Guðmundur Karl Brynjarsson, prestur í Lindakirkju, og Guðrún Karls Helgudóttir, prestur í Grafarvogskirkju.

  • Guðrún Karls Helgudóttir hlaut 839 atkvæði eða 45,97%
  • Guðmundur Karl Brynjarsson hlaut 513 atkvæði eða 28,11%
  • Elínborg Sturludóttir hlaut 465 atkvæði eða 25,48%
Kosið var á milli þeirra Guðmundar Karls Brynjarssonar, prests í Lindakirkju, Elínborgar Sturludóttur, prests í Dómkirkjunni og Guðrún Karls Helgudóttur, prests í Grafarvogskirkju.Vísir/Einar

Á kjörskrá voru 2.282 einstaklingar, þar af 167 prestar og djáknar og 2.115 leikmenn.

Kosningarétt eiga aðal- og varamenn í sóknarnefndum og allt að sjö kjörfulltrúar úr hverju prestakalli, valdir af sóknarnefnd eða sóknarnefndum. Þá eiga einnig kosningarétt aðrir leikmenn sem eiga sæti á kirkjuþingi.

Í tilnefningarferlinu hlaut Guðrún 65 tilnefningar, Guðmundur Karl 60 og Elínborg 52.


Tengdar fréttir

Biskups­efnin ekki stressuð á krossa­skopi RÚV

Biskupskjör hefst 11. apríl næstkomandi og gestir Pallborðsins voru þremenningarnir sem tryggðu sér útnefningu þegar tilnefningar fóru fram: Guðrún Karls Helgudóttir, Guðmundur Karl Brynjarsson og Elínborg Sturludóttir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×