Formúla 1

Friðar­við­ræður milli um­boðs­manns Verstappens og Horners

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allra augu eru á Christian Horner, liðsstjóra Red Bull, þessa dagana.
Allra augu eru á Christian Horner, liðsstjóra Red Bull, þessa dagana. getty/Kym Illman

Umboðsmaður Max Verstappen, heimsmeistarans í Formúlu 1, hitti Christian Horner, liðsstjóra Red Bull, á friðarfundi vegna ástandsins innan herbúða liðsins.

Horner er umtalaðasti maðurinn í Formúlu 1 þessa dagana. Eftir innanhúss rannsókn hjá Red Bull var hann hreinsaður af ásökunum um óviðeigandi hegðun í garð samstarfskonu. Horner hélt ef til vill að hann væri sloppinn fyrir horn en svo var sannarlega ekki því skilaboðum hans og samstarfskonunnar var lekið skömmu fyrir fyrstu keppni tímabilsins í Formúlu 1.

Verstappen vann kappaksturinn í Barein á laugardaginn og samherji hans, Sergio Pérez, varð annar. Eftir hann steig faðir Verstappens, Jos, fram og sagði Horner væri ekki stætt að vera lengur í starfi hjá Red Bull.

„Þetta getur ekki haldið svona áfram. Þessi staða er ekki góð fyrir liðið og er sundrandi,“ sagði Jos. Hann hafnaði því hins vegar fyrir að hann hefði lekið skilaboðunum milli Horners og konunnar.

Til að reyna að bera vopn á klæðin hittust Horner og umboðsmaður Verstappens, Reymond Vermeulen, á eins konar friðarfundi. Hann ku hafa gengið vel en spurningin er hvort það dugi til að lægja öldurnar innan Red Bull.

Eftir kappaksturinn í Barein sagðist Horner vera handviss um að hann yrði áfram við stjórnvölinn hjá Red Bull. Hann hefur verið liðsstjóri Red Bull síðan liðið hóf keppni í Formúlu 1 fyrir nítján árum. Síðan þá hefur Red Bull sex sinnum orðið heimsmeistari bílasmiða og sjö sinnum heimsmeistari ökuþóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×